Föstudagur, 22. júlí 2011
Yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndal á Skagaströnd
Málverkasýning á Skagaströnd
Yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndal opnuð á laugardaginn
Sveitarfélagið Skagaströnd stendur fyrir yfirlitssýningu á verkum Sveinbjörns H. Blöndal í íþróttahúsinu á Skagaströnd frá 23. júlí til 14. ágúst 2011. Þar má sjá hluta af verkum Sveinbjörns sem málara, en hann bjó stóran hluta ævi sinnar á Skagaströnd. Sýndar eru teikningar, vatnslitamyndir, akríl- og olíumálverk.
Sýningin verður opnuð laugardaginn 23. júlí kl. 14 og verður opið til kl. 17 þann dag.
Sýningin mun standa til 14. ágúst 2011, opin alla daga frá kl. 13 til 17 og eru allir velkomnir.
Á sýningunni eru fimmtíu og fjögur málverk auk nokkurra teikninga. Myndirnar eru valdar með það að markmiði að sýna þróun hans sem listamanns og mismunandi litanotkun og efnistök.
Sýningin er sett upp í samstarfi við fjölskyldu Sveinbjörns. Fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir hafa lánað myndir á sýninguna.
Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Norðurlands vestra.
Sveinbjörn Helgi Blöndal
Sveinbjörn fæddist á Akureyri 11. október 1932. Foreldrar hans voru Magnús Blöndal framkvæmdastjóri á Siglufirði og kona hans Elsa María Schiöth.
Hann ólst upp á Siglufirði. Rétt innan við tvítugt hélt hann suður yfir heiðar til náms og starfa. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og brautskráðist af listmálunardeild. Ungur að aldri hóf hann feril sinn með því að teikna skopmyndir í dagblöð.
Frístundir notaði Sveinbjörn til að mála og teikna en hélt lengi vel verkum sínum lítt á lofti þótt þeir sem þekktu hann best fengju að sjá og njóta málverka og skopmynda.
Fyrirmyndir í málverkin voru oftast sóttar í íslenska náttúru þar sem fagurkerinn beitti litatækni sinni til að kalla fram tilbrigði náttúrunnar, birtuna og formin. Hann var gagnrýninn á eigin verk og fannst þau seint fullkomnuð.
Sveinbjörn hélt nokkrar einkasýningar og tók einnig þátt í samsýningum, bæði hér á landi og erlendis.
Sveinbjörn kvæntist, 18. júní 1955 Birnu Ingibjörgu Jónsdóttur og eignuðust þau fjögur börn. Þau fluttust sama ár til Skagastrandar og bjuggu þar nær öll sín búskaparár.
Sveinbjörn var rúmlega meðalmaður á hæð, svipmikill og fasmikill, hafði mikið og strítt hár. Undir miklum augabrúnum leiftruðu athugul augu sem námu af listrænni næmni það sem fyrir bar, hvort heldur voru litbrigði himins eða fjölbreytileiki þess fólks sem hann umgekkst.
Sveinbjörn var skarpgreindur, víðlesinn og fylgdist grannt með því sem gerðist, bæði í nærumhverfi sínu sem og á heimsvísu. Hann var mikill húmoristi og flugbeittar athugasemdir hans um menn og málefni voru oft þannig að þær gleymdust ekki þeim sem til heyrðu.
Hin síðari ár glímdi Sveinbjörn við erfiðan sjúkdóm og m.a. þess vegna fluttu þau Birna til Hafnarfjarðar árið 2001. Veikindin höfðu þau áhrif að hann gat ekki haldið áfram listsköpun sinni.
Sveinbjörn Helgi Blöndal lést 7. apríl 2010.
Á heimasíðunni www.gullmolar.is má sjá myndir af hluta af verkum Sveinbjörns.